Wednesday, March 12, 2008

Frýjuorð og hvatningar

Sökum hvatningar frá Arnari og efasemda frá mömmu læt ég þetta myndbrot fylgja með. Ekki alveg nýtt en sýnir (kannski ekki augljóslega) tignarlegan, nánast ljóðrænan Þelamerkur stílinn sem hefur af sumum verið jafnað líkt við líkamlegar fínbókmenntir eða "corporal poesí".

Sunday, March 9, 2008

Vetur í Fjallasal


Eins og ég sagði í síðasta innleggi var á döfinni að fara í skíðaferð og Röldal áfangastaðurinn. Ég var líka búinn að lofa innleggi eftir ferðina sem kemur loksins nú! Betra seint en aldrei.


Hér á vesturströnd Noregs er ekki vetur, heldur stöðugt haust og við höfum verið að upplifa lengsta haust i manna minnum hér. Að vísu voru október og nóvember sæmilegir, ef ég man rétt en svo hefur verið rigning, rigning og aftur... jú, þú átt kollgátuna, rigning.


Ég fæ, eins og margir vita, regluleg frí í vaktarúllunni minni sem koma til af því hvað ég vinn mikiði af löngum vöktum (úúúú!!) og þetta frí bar nú upp í vikunni fyrir vetrarfrí og tilviljun réði því svo að Þóra átti líka marga daga lausa akkúrat þessa viku. Þessvegna tekin sá póll í hæðina að fara í skíðafrí. Í lífi okkar hefur auk veikinda barnanna, mögulegra barnapía (sem hafa jafnvel gert sér upp heilahimnubólgu til að losna undan barnagæslu) verið einn hlutur sem hefur sett strik í reikninginn og það er bíllinn! Nú bar svo við að stuttu fyrir skíðaferðina fór hann að láta með ólíkindum og verkstæðisgreiningin var, eina ferðina enn, ónýtur gírkassi! Jæja, þegar búið var að klassa gripinn upp með enn einum nýjum gírkassa var ekki til setunnar boðið, lagt í hann að kveldi þess 12. febrúar og komið að kveldi í vetrarríkið í Röldal, sem er fjöllum krýndur smábær inni í landi norðan Stavangurs. Dagurinn eftir fór í að koma krökkunum fyrst upp i fjallið í stólalyftunni og svo grenjandi og kvartandi úr stólalyftunni, niður í barnabrekkuna sem er svo óheppilega staðsett sem mitt í fjallinu. Þetta dugði næstum til andlegrar vanheilsu fyrir okkur foreldrana og varanlegrar óbeitar á skíðaíþróttinni fyrir krakkana. Hafðist þó fyrir rest og tekið snemma til við nestið. Sá dagur leið svo við skíðarennsli hjá mis-áhugasömum rennslis unnendum, einkum var það Ari sem sökum ótta við að lenda í stjórnlausu niðurrennsli niður aðal brekkuna beindi för sinni gegnum karga og "bratta" í barnabrekkunni og hafði þar af leiðandi takamarkað gagn og enn minna gaman af deginum og það eina sem sló á hræðsluna við "hyldýpið" niðureftir var hræðslan við skapofsa karlkynsuppalandans á heimilinu. Þau systikin fengu svo far með snjósleða niður í skála að degi loknum þeim til talsverðrar gleði. Heimilisfaðirinn elti svo spúsu sína með skíði barnanna í bakpoka á fjallaskíðum sínum og skíðaði niður brattann af svo mikilli kyngi og reisn að Írisi varð á orði: "Hann er eins og krakki!" og þá sennilega vísað til svokallaðrar "Þjóhnappa-Þelamerkur sveiflu" sem notuð var sér til framdráttar (hér verður ímyndunarafl lesanda að fylla upp í lýsinguna).


Næstu tveir dagar voru svo tíðindalausir á afar jákvæðan hátt, krakkarnir efldust í skíðamennskunni daginn eftir og um kvöldið farið út og gerð atlaga að smíð igloos með hálfum sigri. alla dagana var rjómablíða, með sól og stilltu og köldu veðri. Aveg stórkostleg tilbreyting frá gráviðri liðinna vikna. Á föstudeginum keyrðum við svo heim seinnipartinn eftir að ég hafði fengið leyfi til að renna mér aðeins og snurfusa Þelasvinginn betur, þótt enn hafi nokkuð uppá vantað. Heimferðin var tíðindalaus og ekið í skjóli fjalla, dala og fjarða í ljómablíðu. Í heildina sérlega skemmtileg ferð og vítamínsprauta í sálarlífið.