Monday, March 26, 2007

Fljúgandi spendýr


Hér kemur

mynd af fótboltahetju fjölskyldunnar. Þessi mynd var tekin rétt fyrir fyrsta fótboltamót kappans. Efnilegur eins og sjá má! Spilaði helming af 3 leikjum og skemmti sér afskaplega vel og stóð sig prýðilega. Stoltur af mínum manni!

Af afrekum heimilisföðurins ber það nýast í fréttum kvöldskokk í logni og heiðríkju í kvöld. Það er ekki hægt að segja að ég sé léttur á mér en gengur samt vel að hlaupa þennan 3 mi. hring sem ég hef verið að hlaupa í vetur. En veðrið verður ekki mikið betra. Hljóp inn í ljósaskiptin með roða í vestri og fuglakvak allt um kring. Sá í fyrsta sinn leðurblöku á flugi í dag, flögrandi að ná sér í sopa úr Stokkavatninu. Skemmtileg sjón það!

Thursday, March 22, 2007

Kvöld í tunglskini

Í stjörnubjörtu og við mánasigð og logn var farinn stuttur 3 mi. hringur niður að Stokkavatni. Fannst ég þungur að sumu leyti en ekki að öllu. Gekk vel, aldrei að niðurlotum kominn á leiðinni.

Smá leiðrétting. Ari átti ekki að keppa á fótboltamóti á þriðjudaginn heldur á laugardaginn. Æfingarleikurinn var á þri. en þá var karlinn lasinn. En hann fer ótrauður á mótið um helgina.

Nú fer að líða að því að ég finni mér hlaup til að fara í í sumar. Kannski Stavanger marathonið, byrja smátt og bæta smám saman við sig, það er stefnan.

Monday, March 19, 2007

The wimping limper stops for nobody!

5 mi. í dag, heiman að svo ég slapp við að taka bílinn, sem er kostur að tvennu leiti. Annarsvegar minnkar útblástur gróðurhúsalofttegunda og í öðru lagi get ég fengið mér í glas áður en ég legg i hann án þess að hafa áhyggjur af að missa teinið!

Hér eru tveir krakkar með kvefpest og hita svo þau hafa verið heima í dag. Ari er að keppa á sínu fyrsta fótboltamóti á morgun svo það ætti að draga hann á fætur á morgun, enda pestin hvorki þung né alvarleg. Stefni að því að hafa með myndavél til að festa á mynd atburðinn og Gústi og Þórahallur fá svo að sjálfsögðu eintak af afrakstrinum enda að stóru leiti á þeirra ábyrgð hvernig komið er, og er það vel!

Friday, March 16, 2007

Twins

Allir muna eftir myndinni með Arnold Swarzenegger og Dannie DeVito, þar sem þeir léku tvíbura, annar stór og stæltur og góður og vitlaus en hinn lítill og feitur og illgjarn og óheiðarlegur. Það er ekki það sem ég meina, en nóg um það.

Ennþá er ég að hlaupa stutt endurhæfingarhlaup. Í dag var kalt og gjóla en þurrt. Þolið er að koma og kraftar að aukast. Þetta er miklu skemmtilegra en þegar ég var að byrja fyrst, gengur mikið hraðar.

Ari las ævintýri með skólafélögum sínum á "morgensamlingunni" á "Torjå" eins og hann er kallaður á Stavangursku, samkomusalurinn. Stóð sig bara vel sveimérþá. Skil varla upp né niður, finnst hann hafa vaxið um heilt númer síðustu 2 vikur, allur að róast og spekjast.

Já og ekki síst: Fann afmælisgjöf og keypti handa Þóru á bæjarröltinu í dag. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir.

Wednesday, March 14, 2007

Vorrigningar

Engin steypidemba heldur meira svona dropar á stangli. Stutt hlaup í léttu rigningardrussi og gjólu en annars afar góðu veðri. Jafnt hlaup og hraðinn smám saman að aukast samhliða úthaldinu.

Fórum í bæinn í dag eftir vaktina mína sem var afar tíðindalítil, vaknaði úthvíldur kl. 6 í morgun og gat ekki sofið lengur! Reyndi að finna afmælisgjöf fyrir Þóru sem á afmæli á morgun en náði ekki alveg fullri lendingu með það.

Fengum SMS frá Tinnu í dag frá Bergen, semsé í seilingar fjarlægð. Alveg agalegt að geta ekki hitt hana en það verður bætt úr því í sumar, heldur nú betur og jamm og já!

Tuesday, March 13, 2007

Dagnóta

Hafði vissar efasemdir um framhaldið eftir blessaða helvítis pestina og var við að draga í land með framhaldið en er smám saman að komast af stað aftur. Alveg makalaust hvað regluleg (les: rengluleg) hreyfing hefur að segja um andlegt atgerfi.

Þessa dagana er að fæðast lauslegt plan um framhaldið. Stefni að maraþoni í haust með millilendingu í styttra hlaupi í sumar einhvern tímann þar sem markið verður fof að klára en ekki að slá met. Í praxis verða þó met slegin, allavega persónuleg.

Já Willie orðaði þetta svo vel hérna um árið, engu við það að bæta!

Monday, March 12, 2007

Mánudagurinn 12. mars

Átti óvænt frí í dag sem var notað vel. Röltum fyrst kringum Mosvatnið eftir að hafa skutlað krökkum í skóla, leikskóla. Svo í bæinn með hrærivélina sem reyndist alss ekki biluð að sögn fróðra svo hún kom með mér heim seinna sama dag. Hljóp létt hlaup við Stokkavatnið í ágætis gír áður en ég keyrði Þóru í vinnu og að lokum var Íris keyrð í afmæli til Emblu og Ari á sundnámskeiðið. Já og viti menn! Hann stóð sig bara með stakri prýði það sem ég sá til hans, synti eins og greifi og reyndi mas að taka tilsögn! Detti mér allar dauðar!

Saturday, March 10, 2007

Vor í lofti

Hlaup og hnébeygjur er uppskrift dagsins. Nú fer skrokkurinn að komast í gang aftur. Við Stokkavatn í gjólu og rigningu en afar gott milli trjána.

Kemst sennilega ekki á PADI á mánudaginn vegna sundnámskeiðs hjá Ara. En, koma tímar, koma ráð.

Thursday, March 8, 2007

Quarz

Sveiflur. Ef maður leiðir orku í kvartz kristal þá fer hann að sveiflast á ákveðinni tíðni og er sú tíðni "þýdd" yfir á það sem við sjáum sem ein sekúnda. Ef ég man rétt er tíðni örvaðs kvartzkristals ca. 32.000 Hz. En hvaða máli skiptir þetta annars? Það er góð spurning.

Ekkert hlaupið í dag en kvöldið notað í styrkjandi æfingar upp úr nýju biflíunni: Runner's World Guide to Cross-Training. Já það er alltaf eitthvað nýtt! Og til að bæta gráu ofan á svart hefur sú hugmynd fæðst (getin af Jasoni, móður allra hugmynda) að taka PADI grunnnámskeiðið og opna þannig möguleikann á könnun lítillega stærri hluta þessarar jarðar sem við búum á, þótt þetta einskorðist við 18 metra dýpi sem setur manni nú viss takmörk.

Svo þessi hlaupalogg minn er smám saman að breytast í skrásetningu þess fjölda hugmynda sem lýstur niður í mig á hverjum tíma fyrir atbeina innri og ytri krafta. Því ætti, þegar tímar líða, að vera hægt að ákvarða á hvaða tíðni ég sveiflast.

Monday, March 5, 2007

"Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar"

Já og Lasarus er risinn. Hipp húrra! Fyrsta hlaup mitt eftir langa fjarveru, mér til sálarbótar og öðrum fjölskyldumeðlimum til léttis (hvað líður, vonandi) og von til að fýlan fari að rjúka úr mér ("Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.").

Aðrir í fjölskyldunni í góðum gír, Ari farinn að stunda sundið af meiri alvöru, farinn að bera sig við þá sem eru góðir og reyndi fyrir sér í djúpu lauginni í dag. Íris reytir af sér spakmælin. Var um daginn að reyna að kenna henni að skrifa nafnið sitt rétt en hún hafði aðrar meiningar en ég um það. Hún sat svo í dag og var að ræða hvaða stafir eru með kommu og sagði svo:"Stafurinn minn er með kommu.... en ég skrifa með punkti, hehehe".