Wednesday, October 31, 2007

Af mammonskum, og öðrum pælingum

Hef komist að því að mig bráðvantar nýja tölvu. Og ekki bara einhverja, heldur iMac 24" kvikindi með stórum hörðum og fullt af fínum fítusum. Og það sem er kannski mikilvægast, hún er glÆný. Já svona fer það þegar maður fær dót í afmælisgjöf. Ævinlega vill mikill meira!

Annars eru þetta ekki sérlega hugsandi pælingar. Verð að reyna betur.... Jú hér kemur ein góð pæling sem Mér datt allt í einu í hug. Hver er tilgangur lífsins? (Kann einhvert ykkar svar við því? Allar tillögur eru vel þegnar, væri algerlega ti í að skeggræða það hér á þessum vettvangi). Hafa veraldleg gæði eitthvað með þetta markmið að gera, þe er annað háð hinu eða áhrifavaldur á það? Endilega setjið niður ykkar vangaveltur um þetta en munið að það sem skrifað er á "Vefinn" á eftir að standa þar um ókomna tíð (VÁ! var reyndar ekki búinn að spá í þann vinkil áður!)

Tuesday, October 30, 2007

Spurningin

Er hægt að segja um tvo karlmenn að þeir séu samkynhneigðir ef þeir laðast báðir að konum?

Vildi að ég væri hugsandi maður

Vafraði inn á heimasíðu Arnars Arngrímssonar í gær. Það er svo gaman að sjá að fólk ekki er alltaf fast í veraldlegum hlutum og getur skrifað um eitthvað skemmtilegt. Það var gaman. Verð að leggja inn nótu til hans einhvern tímann.

Hljóp við Stokkavatnið í dag með Þóru í meinleysis hausti. Hér er alltaf smá munur á hausti og sumri svo maður verði ekki alveg "villtur". Laufin falla af trjám og hitastigið fellur aðeins. Fíflar halda samt áfram að blómgast hver um annan þverann.

"Viva la harvesta"! eins og þeir segja í rómanskt mælandi hluta heimsins.

Thursday, October 25, 2007

Blööööh!

Hvað sumir dagar geta verið leiðinlegir. Og að dagarnir skuli allir byrja á vitlausum enda.

Maður dragnast hundfúll á fætur, dröslar sér og krökkunum á fætur. Hér eru það Ari og Þóra sem sjá um að vera hress, Ari byrjar vanalega á að setja malarann af stað og getur svo talað um allt og ekkert fram á kvöld. Íris er "meðvitundarlaus" þangað til hún er komin út í bíl. Ég er semicidal, hef allt á hornum mér og tek það vanalega út á Ara greyinu. Lítið uppbyggilegt það!

Svo líður vinnudagurinn og maður er í sæmilegu formi, fungerar svona að nafninu til.

Þegar heim er komið er maður svo þreyttur og pirraður og enn er það Ari greyið sem það bitnar mest á. Og svo að sofa.

Já ævintyri hversdagsins er aldeilis dásamlegt, eða þannig!

Hljóp 4 km í dag. Vona að geðstyrkjandi áhrif hlaupanna fari bráðum að "kikka inn".

Tuesday, October 23, 2007

Hið opinbera spjalltorg guðanna

Ég hélt að það væri ekki til Guð. En svo las ég viðtal við yngsta og ferskasta talsmann Krf hér í Noregi. Til skýringar þá stendur Krf fyrir Kristelige folkeparti og er, eins og nafnið gefur til kynna, pólitískur armur Guðs almáttugs hér í Noregi. Þessi verðandi máttarstólpi Noregs er semsé tvítugur galgopi, óskaplega ferskur og trendí í útliti en innviðirnir þrárri en vikugömul ísa. Þessi semsé rétt rúmlega úr framhaldsskóla skriðni tittur sem var að gifta sig 19 ára unnustu sinni fyrir 2 vikum, og kemur nú í viðtali fram og segir samkynhneigð það versta sem nútímasamfélagið eigi við að etja. Það að lifa í samkynhneygð sé synd samkvæmt ritningunni (sem hér eftir verður kölluð "Manúallinn") en hann "köttar þó þann slakka" að segja að samkynhneigð sé það samt ekki "per se". Er alveg miður sín að fólk ekki lifir í enu og öllu eftir "Manúalnum"!

Ja ég segi nú bara Gvuði sé lof að slíkur sómadrengur hafi aldrei óhlýðnast foreldrum sínum með dauðadóm eða ævarandi þrældóm sem "réttmæta" refsingu eins og "Manúallinn" boðar. Það verður spennandi að fylgjast með þessum mæta manni þroskast sem alvöru pólitíkus í framtíðinni og eins að fylgjast með vel þjálfuðum brachioradialis vöðvanum, hrörna nú eftir að kallinn er kominn í hnapphelduna!

Já, eins og ég sagði í upphafi var ég í efa um Gvuðs tilsvist en eftir að hafa lesið fyrrnefnt viðtal vona ég næstum að hann sé til. Við þurfum hann til að verjast skrípum eins og þeim sem framar er getið!

Sunday, October 21, 2007

Life goes on

Svo þá er þessi helgin liðin. Ég held mig við sama heygarðshornið og trimma léttfættur um stíga Stavangurs, nú síðast við Stokkavatnið. Ákaflega góður staður til að skokka við. Nánast alveg.... Blablabla... innantómt þvaður... prumpuhljóð...

Fékk nýtt leikfang um helgina. Leikfang mánaðarins. Ansi sniðugt. iPod touch. Mjög sensuellt lítið tæki sem maður getur geymt ýmsa ómissandi hluti lífsins í, svosem eins og tónlist. Er nú svo komið að ég er búinn að vista allt Frank Zappa safnið mitt. (2 diskar!) og Harvest með Neil Young á tækið. Alveg skrambi sniðugt og skemmtilegt.

Hei.. kann einhver góðan brandara?

Sunday, October 14, 2007

Stundarkorn að hausti

Hef ekki ennþá sett innlegg í bundnu máli. Það er því komið að því að rifja upp gamla ÓFÞ takta. Here goes!

Haust er komið, sumar farið
þannig það fór að lokum.
Fólkið í Angrinum veðurbarið
hversdags undir okum.

Já ekki hefur manni farið mikið fram frá því sem áður var. Hér nálgast nú næsta heimsókn frá tengdafólkinu sem er að verða að hausthefð og bara gott um það að segja. Og á morgun verð ég 35 ára. Ja må hann leva segja Svíar, Hurra for deg som fyller ditt år Norðmenn og Happy bussday to you segja Engilsaxar samkvæmt honum Ara mínum.

Thursday, October 11, 2007

Haustfríið er "nesten omme"

Já hér sit ég nú kæru vinir, ó já! Og haustfrí Ara Orrasonar er að nálgast sitt endalok. Hér hafa mildir vindar hausts með logaroðnum himni og trjám sveipað hversdaginn sínum, já mér liggur við að segja, menlankólískum, allt að því anhedoniskum "effekt". Já ég get bara ekki lýst því öðruvísi, eða öllu heldur gæti ég það ábyggilega ef ég myndi reyna, þyrfti raunar ekki að reyna svo mikið. Þegar ég hugsa um það er ábyggilega hægt að lýsa þessu á þúsund aðra vegu án þess að reyna svo mikið á sig og niðurstaðan væri jafnvel þannig að það væri einhver meining í því, ekki bara eitthvað helvítis bull og kjaftæði. Andskotinn hafi það.

Talandi um bull þá er Íris búin að fá inni í skóla næsta haust. Það er ekki sami skóli og Ari er á, það er eini skólinn af 4 sem hún þarf að labba yfir umferðagötu, það er af 4 mögulegum skólum sá sem hefur lélegast orðspor sem menntastofnun. Og þá verður manni spurn: Er algert skilyrði að vera algerlega skini skroppinn til að geta talist gjaldgengur sem kommúnustarfsmaður hér í Noregi!? ERU ÞETTA ALLT BARA HELVÍTIS HÁLFVITAR?? NENNIR MAÐUR AÐ STANDA Í ÞESSU MIKIÐ LENGUR??

Já en svo að jákvæðara spjalli. Ég er farinn að hlaupa aftur og skapið er (hvað sem menn annars lesa út úr síðustu málsgrein) allt í bataátt. Og hvað viðvíkur spurningunni þá er svarið: Nei, komum heim næsta haust ef þetta verður ekki leiðrétt. Svo þá er það sagt!