Monday, April 23, 2007

Það er vor í lofti og vindur hlýr

Heldur nú betur! Hér er aftur komið vor/sumar og i dag voru hlaupnar 3 mi. í 13°C hita og á tæpl. 11 km/klst. meðalhraða. Fanst ég samt vera að taka því rólega.


Hér var mikill jarðvöðulsháttur um helgina. Ég plantaði semsé 4 rósaplöntum til viðbótar við þær 2 sem voru settar niður í fyrra. Svo reif ég niður Rhododendroninn sem var framan við húsið og til lítillar prýði. Svo nú er það bara hvítblómarunninn (perlebusk?) sem stendur af því sem var í garðinum þegar við keyptum húsið. Sprettan á rósunum frá í fyrra er þegar orðin ca. 20 cm. það sem lengst er vaxið svo nú er komin öskrandi spretta.


Sumarfrís áformin eru líka að fæðast, var að senda bréf á B&B i Amsterdam sem vill taka við okkur. og áður vorum við búin að panta viku i Danmörku svo það er að komast mynd á þetta. Gaman að því!

Monday, April 16, 2007

Kvöldið er okkar og vor í Vaglaskóg

Í dag var farið stutt og hratt. 3 mi. á 11.4 km/klst meðalhraða, ekki dónalegt það. Vorblíða af bestu sort, hæg gjóla og bjart yfir.

Merkilegt að ein af mínum allra fyrstu minningum er úr útilegu með pabba, mömmu, Láru og fleirum sem ég man samt ekki hver voru. Einstaka brotakennd atriði eins og að þar sem við stoppuðum, við mót gróins hrauns og grasbala, var vatnsfyllt hola sem maður gat kúkað í. Miðað við hvaða áhugasvið skarpasta minningarbrotið er fest við má gera ráð fyrir að ég hafi verið ca. 3ja ára. Passar vel við spakmæli sem Kjell, einn af lærifeðrum mínum hefur uppá vegg og hljóðar eitthvað á þá leið að lífið sé ekki sá tími sem maður er lifandi heldur þau augnablik sem maður man. Sniðugur karl hann Kjell, náði að kalla fram "Norrlendingen" í honum í dag með því að láta hann blóta mér í vitna viðurvist, þótti afar vænt um það!

Að öðru: Ari kemst í næsta hóp fyrir ofan sig að hausti í sundinu. Hann var að vonum ánægður með það, raunar ljómaði hann! Segist ætla að æfa sund þegar hann verður eldri og ég held að hann gæti alveg náð góðum árangri í því eins og hann er vaxinn, drengurinn, langur og stæltur. Liðleikinn kemur svo með tímanum geri ég ráð fyrir :)

Thursday, April 12, 2007

OVER THE TOP DADDY!!

Já ég fór nýja leið í dag, bratt og stutt og mikil hækkun. Og erfitt! Samt ekki eins erfitt og hjá Sylvester Stallone í myndinni Over the top eða það efast ég um. Svo stutt hlaup á eftir í afar mildu vorveðri.

Hér var svo bökuð Pizza eftir uppskrift í dag, og það tókst bara svona agalega vel. Erum að breytast í "gjör det selv" fjölskyldu að hætti norskra, æ! mig auman!

Wednesday, April 11, 2007

Ertzten tag im homo hozen!

Já þá er vorið komið af fullum krafti og ég farinn að hlaupa í hommabuxum aftur. Tileinka hlaup dagsins Jasoni sem ætlar að heimsækja okkur með sinni indælu fjölskyldu, þar á meðal nýfermda manninum sem ég er ákveðinn í að senda gítargripabók fyrir nýja gítarinn sinn.

Hljóp 4 mi. í kvöld i banastuði, 11 km. meðalhraða og ekkert mál nema rétt að vi. hnéð lét vita af sér undir lokin. Ég stefni að Siddis hlaupinu í lok apríl sem er kringum Stokkavatnið. Leið sem ég hef oft hlaupið áður en verður stemmning að hlaupa með fleirum í hóp. Hlakka til þess.

Þurftum að stoppa 3svar á leið heim úr vinnunni í dag þar sem ungfrúin á heimilinu sat afturí og orgaði og grenjaði af einskærri... ummmm... ákveðni. Já blessað barnalán!

Monday, April 9, 2007

Páskar búnir

Já þá er búin hátíð karlsins á prikinu og hversdagurinn á næsta leiti. Það er gott!

Í dag hljóp ég 3 mi. með blý í skónum, eða þannig upplifðist það allavega meðan á því stóð. En svo kláraðist það með sínum ágætu fylgikvillum, þe. auknum hressleika og bjartsýni. Það er gott!

Börnin eru að gera hvort annað hálf klikkuð, naggandi og böggandi í hvort öðru. Leið á hvort öðru eftir viku frí saman, en nú sér fyrir endann á því. Og það er líka gott!

Friday, April 6, 2007

Hlaup í þágu heimsfriðar

Kvöld við Stokkavatnið á hnútasvipudaginn. Og í tilefni dagsins var hlaupið lengra en áður. Nú 4 mi. og á jöfnum dampi án vandræða. Alveg super marvy!

Lét annars til skarar skríða og tók til í geymslunni í fyrradag. Þarft verk og bara nokkuð skemmtilegt. Og í dag var það svo Haddabrauðsbakstur af fullum krafti. Gaman, gaman!!

Wednesday, April 4, 2007

Pow scar 'n owl gassed

Og það hefur meðal nossarinn tekið í sína þjónustu. Og ég hélt að þessi annarí hefð heimanað væri að ofgera hlutunum! Hér er bannað að kaupa bjór úr búð eftir kl. 18 í dag (miðvikudag) og menn flestir farnir á "fjellET" eins og Frosti myndi orða það.

Fór að hlaupa í kvöld og hljóp 3 mi. Hefur heldur dalað einbeiting og marksækni eftir blessaða helvítis pestina hér um daginn og þörf á bragarbót þar. Að svo mæltu heiti ég því að nefna bessaða helvítis pestina aldrei aftur!

Er annars orðinn PADI, bíð bara eftir teininu og er tilbúinn að kanna höfin 7. Kafaði niður á 20 metra dýpi í minni síðustu köfun. Dálítið ógnvekjandi tilfinning óneitanlega en engu að síður spennandi. Nú þarf bara að gera búninginn þéttan svo hann virki sem það sem hann gefur sig út fyrir að vera, semsé þurrbúningur.

Sunday, April 1, 2007

Djúpin könnuð

Lítið hefur farið fyrir hlaupum sl. viku vegna köfunarnámskeiðs, hvert kvöld frá þriðjudeginum síðastliðnum og síðasta eftirmiðdegið/kvöldið verður á morgun. Og þannig verð ég kominn með Open Water Diver skírteini PADI. Svo þarf að fara að setja fart í hlaupamálin aftur.