Friday, January 26, 2007

Veikindi

Nú lítið um hlaup vegna heilsubrests sem lýsir sér í kvefi og höfuðverk með hittamalli og hóstakjöltri. Byrjar ekki vel, aðdragandinn að langhlaupinu. En þetta hlýtur að koma allt saman og kom sér svosem ekki alveg illa þar sem einhver vinstrifótarslæmska vað farin að láta á sér kræla.

Monday, January 22, 2007

Nú er kominn snjór

3 mi. hlaup við frostmark í logni og nýföllnum snjó. Og já, áður en það byrjaði að snjóa hafði fallið slydda sem hafði frosið og myndað glæru undir nýfallna laginu! ómögulegt færi? Aldeilis ekki þegar maður hleypur á YAKTRAX! Gekk afskAplega vel og byrjaði ekki að skrika að ráði fyrr en ég hætti að hlaupa. Nú eru allir vegir færir, enda engu að kvíða á þessum fínu hálkugormum.

Annars var Ari á sundnámskeiði í dag. Ekki meira um það en hann ætlar að hvíla sig á Geimbojnum eitthvað næstu daga...

Saturday, January 20, 2007

Skref í rétta átt

Langur í dag. 7 mi. í 6°C vestan roki og rigningu. Eitt af betri hlaupunum í langan tíma. Slakur og afslappaður, hljóp í algeru dóli en er samt að hlaupa ca. km. hraðar á klst. en í upphafi.

Fór annars í bæinn í dag með krakkana í strætó og hitti Þóru sem var á morgunvakt í dag. Sátum á kaffihúsi og drukkum og átum í mestu vellystingum og rigningin lamdi göturnar fyrir utan. Talaði við Jason í gær, krakkarnir búnir að vera í algeru lamasessi, Petra með Inflúensuna og Atli bólgnum botnlanganum fátækari síðan á miðvikudaginn í síðustu viku. Reyndi að fá mig til að taka PADI prófið, kanski það takist hjá honum fyrir rest. Hver veit hvaða della tekur við næst....

Thursday, January 18, 2007

Tölt í tunglskininu

Í stilltu og stjörnubjörtu, logn og ca. 4°C. Hægt og rólegt hlaup.

Vorum á kvöldskemmtun hjá Ara í skólanum. Hellingur af öskrandi börnum og hamagangur á hóli. Nóg til að æra óstöðugan. Samt gaman að sjá krakkana syngja og frílysta sig uppi á sviði fyrir fullum sal eins og ekkert sé sjálfsagðara. Já, bara kaldir krakkar orðnir. Og ekki skemmdi fyrir að okkur áskotnaðist heilt heljarinnar perlusafn til að gera hálsfestar að ógleymdri Gæru dúkkunni sem Espen bekkjarbróðir Ara gaf Írisi sem hann vann og vildi ekki eiga. Fullt hús stiga!

Wednesday, January 17, 2007

Afsakið hlé

Kominn aftur eftir smá hlé vegna vakta og langs hlaups á sunnudaginn. Í dag 4 mi. í 6°C og sunnan gjólu. Sóttist þetta seint og erfiðlega að eigin mati en sá þegar upp var staðið að ég var að auka meðalhraðan svolítið sem skýrir þessa "tregðu". Er að hlaupa mína 8. viku eftir því sem mér reiknast til og bráðum fer að líða að niðurtalningu að hlaupinu í Köben. Set hlaupaprógrammið á netið næstu daga fyrir þá sem vilja hlaupa með mér!

Sunday, January 14, 2007

Langur sunnudagur

Í dag langur sunnudagur en ekki laugardagur þar sem ég var á vakt í gær. 8 mi. í 5°C, roki og einstaka skúr en þá kemur sér vel að geta hlaupið kringum Stokkavatnið sem er nánast umlukið skógi. Erfitt seinni partinn sérstaklega upp á Fjellet-ið til baka en hafðist þó allt saman.

Annars sett stefnan á bíó í dag með krakkana, kannski "Crazy feet" eða hvað hún nú heitir myndin um mörgæsina sem ekki kann að syngja eða eitthvað svoleiðis.

Thursday, January 11, 2007

Og den som....... , han er Jogga

Ákvað að láta hálfkveðna Pekkavísu leiða inn í skráningu dagsins, fanst það einhvernveginn eiga við.

Hljóp 3 mi. i dag, veður skýjað og haglél en gjóla/andvari og 4°C á hitamælinum. Stífur frá í gær og velti fyrir mér í lok hlaup hvað ég væri að útsetja mig fyrir. Fann út að þetta jafngildi því að fara út með hundinn, þe. hundinn í sjálfum sér því þetta hefur óneitanlega áhrif á skapið til hins betra. Svo ég held áfram, ótrauður.

Wednesday, January 10, 2007

Kvöld við vatnið

Með kaldara móti í kvöld miðað við oft áður, 2°C og norðan gola. Hljóp Stokkavatnshringinn með fjölmörgum öðrum sem voru að skokka, eða jogga eins og þetta hét nú einu sinni.

Annars viðburðarsnauður dagur, helst vinnan sem olli hugarbrotum. Heill dagur við reverse family planing. Indælis starfi. Ó já!

Læt samt engan bilbug á mér finna heldur kyrja: "Ég er marathonjoggari, ég ætla að jogga marathonið!"

Monday, January 8, 2007

Af mannfræðistúdíum, lærðum

Hlaupið í dag var stutt, 3 mi. Veður gott, gengið á með hellidembum í dag eins og síðustu daga en stytt upp seinni partinn. Ca. 6°C með sunnan gjólu. Stífur fyrst en liðkaðist þegar á leið. Hljóp hins vegar langt á laugardaginn, rétt rúma 11 km. (7 mi.) í þessu líka fína miðdegisveðri, hringin kringum Stokkavatn heiman að. Kannski ástæðan fyrir stífni dagsins í dag?

Var annars heima í dag, fórum tvö í bæinn og dingluðum okkur í rólegheitum. Fórum ma. á hrygningastöðvar þeirra Angursmanna, þ.e. Magasin Blaa, þar sem Beyglur fást til sölu og þykir sérlega góð áta fyrir ófrískar kérlingar heimamanna. Flykkjast þær gjarnan þangað í torfum, svokölluðum "barsel grúppum" og þarna barsla þær svo sín á milli og jarma um hvað þeim sé illt í rassinum og hvað sé mikill munur að vera óléttur í annað sinn og annað álíka spennandi! Já það eru að sannast spök orð Þóris Haraldssonar, líffræðikennara úr Menntó hve við karlþjóðin förum mikils á mis að geta ekki gengið með börn.

Friday, January 5, 2007

Komdu í gær

Já svona leikur tæknin mann, komst ekki inn á Bloggið í gær vegna tæknilegra takmarkanna. Stefnan nú sett á nýja versjón til að losna við fleiri uppákomur.

Hljóp stutt hlaup, 3 mi. í 5°C og norðlægri gjólu og rigningin ekki langt undan, en hékk þó þurr. Tekið á enn styttri tíma og meðalpúls í alveg sögulegu lágmarki.

Tuesday, January 2, 2007

Nú árið er liðið

Og fyrsta hlaup ársins einnig. Svellandi blíða í kvöldrökkrinu, norðan gola og 4°C hiti. Stífur í kálfum seinni partinn en gekk þó vel.

Af öðrum er það helst að frétta að Þórhalli og Helgu fæddist stúlka (í dag?) skv. skeyti frá Hallberu frænku. Hún lengi lifi og þau öll, HÚRRA!

Monday, January 1, 2007

Nýársdagur

Skv. plani átti að hlaupa stutt í dag. Hef ekki séð mér það fært sökum skammvinra "veikinda" og ójafnvægis í vökvaballans í dag (eins og ég drakk nú mikið í gær). Reyni að bæta um betur næstu daga.

Nú er hins vegar stefnan sett á Kínverskt veitingahús hér í bæ eftir afar rólega byrjun á árinu, sængurlegu og lestur.