Wednesday, May 21, 2008

Pistill

Það verður æ lengra milli pistla hér sem skrifast alfarið á pennaleti. Hér hefur vorið smám saman tekið völdin og fyrstu sumardagar hafa liðið. Við höfum notað okkur veðurblíðuna og farið tvívegis í Arboreet sem er trjásafn innfæddra með stígum og vatni og lækjum fullum af froskum og skordýrum. Sáum í fyrra skiptið íkorna skoppa í trjánum, Eðlu sem bakaði sig í sólinni, frosk, drekaflugulirfu og svokallaðan Stålorm sem er raunverulega fótalaus eðla og þannig ormsnafninu ofaukið. Í seinni ferðinni upplifðum við að heyra klið af fótataki skógarmaura í mauraþúfu. 
 

Það var hægt að sjá mun á gróandanum þessa viku sem leið á milli ferða hjá okkur. Meðal blóma var þessi Lilja sem lyktaði eins og hræ. Náttúran hefur sínar aðferðir við aðföngin!
 

Afrek fjölskuldumeðlima liggja eikum hjá Írisi sem hefur náð að missa sína fyrstu tönn og er byrjuð að hjóla hjálpardekkjalaus, ekki slæmur árangur það.
 

Jú svo kom 17. mai og fór. Það var gott! 

Wednesday, March 12, 2008

Frýjuorð og hvatningar

Sökum hvatningar frá Arnari og efasemda frá mömmu læt ég þetta myndbrot fylgja með. Ekki alveg nýtt en sýnir (kannski ekki augljóslega) tignarlegan, nánast ljóðrænan Þelamerkur stílinn sem hefur af sumum verið jafnað líkt við líkamlegar fínbókmenntir eða "corporal poesí".

Sunday, March 9, 2008

Vetur í Fjallasal


Eins og ég sagði í síðasta innleggi var á döfinni að fara í skíðaferð og Röldal áfangastaðurinn. Ég var líka búinn að lofa innleggi eftir ferðina sem kemur loksins nú! Betra seint en aldrei.


Hér á vesturströnd Noregs er ekki vetur, heldur stöðugt haust og við höfum verið að upplifa lengsta haust i manna minnum hér. Að vísu voru október og nóvember sæmilegir, ef ég man rétt en svo hefur verið rigning, rigning og aftur... jú, þú átt kollgátuna, rigning.


Ég fæ, eins og margir vita, regluleg frí í vaktarúllunni minni sem koma til af því hvað ég vinn mikiði af löngum vöktum (úúúú!!) og þetta frí bar nú upp í vikunni fyrir vetrarfrí og tilviljun réði því svo að Þóra átti líka marga daga lausa akkúrat þessa viku. Þessvegna tekin sá póll í hæðina að fara í skíðafrí. Í lífi okkar hefur auk veikinda barnanna, mögulegra barnapía (sem hafa jafnvel gert sér upp heilahimnubólgu til að losna undan barnagæslu) verið einn hlutur sem hefur sett strik í reikninginn og það er bíllinn! Nú bar svo við að stuttu fyrir skíðaferðina fór hann að láta með ólíkindum og verkstæðisgreiningin var, eina ferðina enn, ónýtur gírkassi! Jæja, þegar búið var að klassa gripinn upp með enn einum nýjum gírkassa var ekki til setunnar boðið, lagt í hann að kveldi þess 12. febrúar og komið að kveldi í vetrarríkið í Röldal, sem er fjöllum krýndur smábær inni í landi norðan Stavangurs. Dagurinn eftir fór í að koma krökkunum fyrst upp i fjallið í stólalyftunni og svo grenjandi og kvartandi úr stólalyftunni, niður í barnabrekkuna sem er svo óheppilega staðsett sem mitt í fjallinu. Þetta dugði næstum til andlegrar vanheilsu fyrir okkur foreldrana og varanlegrar óbeitar á skíðaíþróttinni fyrir krakkana. Hafðist þó fyrir rest og tekið snemma til við nestið. Sá dagur leið svo við skíðarennsli hjá mis-áhugasömum rennslis unnendum, einkum var það Ari sem sökum ótta við að lenda í stjórnlausu niðurrennsli niður aðal brekkuna beindi för sinni gegnum karga og "bratta" í barnabrekkunni og hafði þar af leiðandi takamarkað gagn og enn minna gaman af deginum og það eina sem sló á hræðsluna við "hyldýpið" niðureftir var hræðslan við skapofsa karlkynsuppalandans á heimilinu. Þau systikin fengu svo far með snjósleða niður í skála að degi loknum þeim til talsverðrar gleði. Heimilisfaðirinn elti svo spúsu sína með skíði barnanna í bakpoka á fjallaskíðum sínum og skíðaði niður brattann af svo mikilli kyngi og reisn að Írisi varð á orði: "Hann er eins og krakki!" og þá sennilega vísað til svokallaðrar "Þjóhnappa-Þelamerkur sveiflu" sem notuð var sér til framdráttar (hér verður ímyndunarafl lesanda að fylla upp í lýsinguna).


Næstu tveir dagar voru svo tíðindalausir á afar jákvæðan hátt, krakkarnir efldust í skíðamennskunni daginn eftir og um kvöldið farið út og gerð atlaga að smíð igloos með hálfum sigri. alla dagana var rjómablíða, með sól og stilltu og köldu veðri. Aveg stórkostleg tilbreyting frá gráviðri liðinna vikna. Á föstudeginum keyrðum við svo heim seinnipartinn eftir að ég hafði fengið leyfi til að renna mér aðeins og snurfusa Þelasvinginn betur, þótt enn hafi nokkuð uppá vantað. Heimferðin var tíðindalaus og ekið í skjóli fjalla, dala og fjarða í ljómablíðu. Í heildina sérlega skemmtileg ferð og vítamínsprauta í sálarlífið.

Monday, February 11, 2008

Stór dagur í dag!!!!!!

Á morgun er stefnan sett á Röldal sem er skíðaparadís Vesturnoregs Með svo traustum snjóskilyrðum að annað verður ekki fært til jafnaðar. Ég ætla að muna að taka myndavélina með og setja myndir hér á netið að ferð lokinni. Það verður spennandi! Alltaf eitthvað spennandi að geras hérna! Úff!

Sunday, February 10, 2008

Bíódagar

Það er altaf hægt að koma manni á óvart. Sáum sniðuga norska bíómynd í gær sem hét Den Brysomme Mannen. Fjallar um mann sem kemur með rútu (gamalli Sæmundar rútu mas.) og er útveguð vinna við bókhald í fyrirtæki í stórborg. Plottið snýst svo um að menn virðast vera alveg sneyddir tilfinningum, allt snýst um fín sófasett og innanhúsarkitektúr og ytri gæðum. Allt er hægt að laga sbr. þegar hetjan okkar klippir af sér vísifingur í pappírsklippum og rankar við sér í bíl með umbúðir um hendina og vísifingurinn snyrtilega skeyttan á sinn stað. Á sama tíma vantar alla tilfinningu, bragð, upplifun í hversdaginn. Engin gleði eða sorg, vellíðan eða sársauki. Mynd sem vekur mann til umhugsunar þótt ég hafi ekki komist að neinni niðurstöðu, enda langt síðan ég hef komist að niðurstöðu um eitthvað síðast. Mjög fyndin mynd á köflum, samt ekki Lasse Åberg fyndin en ég get samt alveg mælt með henni.

Annars svosem ekki margt að frétta...

Wednesday, January 23, 2008

Hokkí



Krakkarnir komnir á fullt skrið í hokkíinu og bæði farin að renna eins og hetjur. Maður sér dagamun á þeim, aldeilis gaman það! Og það sem ekki skemmir fyrir er að þau virðast bæði hafa mjög gaman að þessu. Annars sá Íris listtdansstelpurnar æfa sig fyrir síðasta hokkítíma og starði opinmynt með stjörnur í augum. Þetta ætlaði hún sko að læra!

Sunday, January 20, 2008

Hver dagur öðrum ólíkur

Jæja, sunnudagurinn er kominn og fjölskyldan sundruð. Þe. Ari fékk að gista hjá bekkjarfélaga sínum og vini honum Espen í nótt. Sofnuðu seint og vöknuðu snemma samkvæmt Evu mömmu hans.

Ég búinn að hlaupa við Stokkavatnið í dag og Íris og Þóra búnar í tölugöngu þar sem öll númer frá 1 og upp í nokkurhundruð voru talin. Svo er planlagt matarboð með Hrafi, Ástu og þeirra gemlingum seinnipartinn eftir hressingargöngu gömlu mannanna kringum títtnefnt Stokkavat. Ja nú gustar heldur en ekki um Ulkrækinga!!

Monday, January 14, 2008

Langur dagur maður!

Byrjað snemma kl. 6:30 í morgun með rúmrisu og dögurð. Svo vinna til 17:30. Svo sund með Írisi kl. 18 og Ara kl. 19:30. svo heim og borðað. Þessir krakkar eru að verða sannir garpar. Gaman að því.

Wednesday, January 9, 2008

Rok og regn, blautur í gegn

Kominn inn úr stuttu hlaupi. Ekki var það vont. Vandi heimsins tekinn taki oki lyft af hump. Hreyfðir limir gefa gleði þegar lyft er rump. Gott er að hlaupa þetta viss líka hann Forest Gump.

Sunday, January 6, 2008

Ich bin einer Marathon laufer, ich mag das Marathon laufen!

Hlaupaárið 2008 er hafið. Ég fór fyrsta hlaupatúrinn minn í langan tíma, misti úr einn mánuð. Og að vanda er upphafið stirt og slappt en hafðist. Fór á nýjar slóðir í dag og hljóp hring um Mosvatn sem er lítill hringur og jafnhár. Ekki mikils krafist af manni þar og það hafðist ágætlega, allavega kominn af stað!

Annars á Hjörvar afmæli í dag, ég slæ á þráðinn til hans nú þegar!

Tuesday, January 1, 2008

Gleðilegt nýtt ár

Jæja! þá er hafið nýtt ár, eina ferðina enn. Hvað skyldi þetta árið bera í skauti sér? það getur verið erfitt að sjá fyrir. Og eins og glöggir hafa áttað sig á hefur förin til Marathon reynst mér seinfarin eins og er, raunar er ég ekki mikið nær þeim áfanga mínum nú en fyrir ári síðan en það markmið stendur þó enn!

Var að koma af vaktinni sem var svo róleg að ég svaf yfir mig á morgunfundinn og kom hálf sofandi með stýrurnar í augunum inn á vaktherbergi. Fæðingamet var slegið aftur í fyrra með einni fæðingu meira en árinu áður. Spilaði svo mikið á gítarinn að ég er kominn með sigg á fingurgómana. Fékk tilboð um gigg á fæðingadeildinni allar næstu næturvaktir. Ekki ónýtt það!