Wednesday, November 28, 2007

Nú hefst vetrarfríið

Fékk óvænt frí í desember vegna ófullkomins frís í sumar, þe. ég átti ennþá viku til góða. Svo nú er tekið forskot á sæluna, farið í næstu bæjarfélög og "sjoppað" ef svo má að orði komast. Það kostar að vísu ferjuferðalag en gæti orðið vel þess virði!

Hef ekki komist að hlaupa síðastliðna daga sökum anna, hélt "lærðan fyrirlestu" um legsig sem mér finnst ýkt spennandi, í alvöru! Sumir græða á tá og fingri en þetta verður mitt gnægtarhorn og af nógu að taka, það er sko alveg á hreinu.

Monday, November 26, 2007

Lokaspretturinn

Þá er það síðasta eyktin fyrir 2 vikna frí í desember. Var með Ara í sundi í kvöld, honum fer heldur fram en gleymir sér gjarnan í vitleysisgangi ef maður hefur ekki hemil á honum. Hann er þó farinn að reyna að anda til hliðar þegar hann vandar sig og skriðsundið er heldur beinna en það var.

Þessi vika fer í ýmsa atburði skemmtilega, ætla mér að hlaupa í þágu mannkyns og ýmislegt fleira sér til gamans gert. Hvað síðar gerist mun framtíðin ein sýna en eitt er víst: Jólagjafirnar eru flestar komnar í höfn og tilbúnar til sendingar. Ekki ráð nema í tíma tekið.

Tuesday, November 20, 2007

Vont en venst vonandi

Þessa dagana er hlaupið með harmkvælum. Verkir í kálfum og sköflungum, þungur á mér og allt erfitt! Hef verið að reyna að kenna einhverju öðru um en að ég sé ca. 5 kg. þyngri núna en þegar ég byrjaði að hlaupa síðasta haust, svosem eins og að innleggin í skóna séu orðin gömul; að skórnir séu nýir; osfrv. Það má grípa í hálmstrá, en ekki víst að það hjálpi.

Saturday, November 17, 2007

Skráning á hinu óumflýjanlega

Þe. hversdeginum. Vaknaði, borðaði morgunmat, drakk kaffi, tók til inni hjá Írisi, borðaði hádegismat, drakk meira kaffi, fór í verslunarferð í nýja mollið hérna sem er eins og Smáralind, borðaði þar kvöldmat og drakk enn meira kaffi, heim að horfa á Wayne´s World með familíunni, út að hlaupa við Stokkavatnið og svo sit ég hér nú. Veðrið er gott, logn og 9°C. Tungl veður í skýjum. Varúlfaveður. Sá samt engan slíkan við vatnið. Sem betur fer.

Hef ákveðið að tíunda ekki klósettferðirnar...

Tuesday, November 13, 2007

Hausthæðirnar lagstar að

Sem ég segi, ekkert er nýtt undir sólinni. Ekki heldur hjá mér.

Djúpi þanki dagsins er: Gusa þeir mest sem grynst vaða? Bylur hæst í tómri tunnu? Hvenær kemur hlé? Nokkuð títt af Jóni frá Felli? Enn reimt á Kili?

4 km í stilltu frosti við Stokkavatn. Himininn heiður og tæri. Ég er í svaka stuði.

Sunday, November 11, 2007

Save it for a rainy day?

Já það má kanski segja, allavega voru kílómetrarnir 8 lagðir að velli í myrkri, rigningu og roki í dag. Og þeir voru teknir hægt, og með góðri upphitun á undan og teygjum á eftir. Þetta er sennilega tákn þess að maður sé að verða gamall, maður þolir minna af hreyfingu en áður og er lengur að koma sér í form, þótt ég eigi sennilega alltaf eftir að kenna Sverri hænsnabónda Kiernan um að hafa smitað mig af beinhimnubólgu hér um árið. Eða kannski frekar að hann gaf verkjunum sem ég var alltaf með í sköflungunum nafn. Já, það er nær sanni. Hef einsettmér að halda þessum vegalengdum sem ég hef verið að hlaupa síðastliðnar 2 vikur, nokkrum vikum lengur áður en ég fer að bæta við, svona rétt til að venja skrokkinn við.

Annars er helgin að verða liðin og ég sé fram á venjulega vinnuviku framundan og svo langþráð helgarleyfi. Og þá verður eitthvað skemmtilegt gert, eins og vanalega (ahemm!).

Saturday, November 10, 2007

Vinnuhelgi

Ég er að vinna um helgina eins og raunar allar helgar í nóvember nema eina. Og Það er saga lífs okkar að vinna alla daga og allar helgar. Það er samt alveg hund fúlt. Eða þannig. Ég fæ svo að öllum líkindum sérfræðingsstöðu á kvennadeildinni í byrjun næsta árs eða fra fyrsta janúar svo nú er maður alveg orðinn mikill karl. Eða þannig sko.

Desea el día de paga vivo!

Hljóp í dag 4 km. í stilltu hausti, gekk vel. Ég sé fyrir mér að með þessu áframhaldi geti ég hlaupið í einhverskonar hlaupi næsta sumar, það væri allavega gaman.

Sunday, November 4, 2007

Stutt andartak í löngu lífi

Helgarvakt. Rólegt í dag svo ég hafði meira að segja smá tíma fyrir skjólstæðingana, þá sem voru inniliggjandi! Sat eina stundina við rúmgafl konu sem kúgaðist og ældi og hljóp á klósettið þess á milli algerlega buguð. Þá næstu við sama rúmgafl þar sem hún ræðir, með eldmóð, um hugsunarleysið og einstrengingsskapinn í kerfinu þar sem ekkert pláss er fyrir einstaklingsmiðaða meðferð og nú er kominn þessi neisti sem maður sér hjá þeim sem berst áfram staðráðinn í að ná öllu útúr lífinu sem það getur. Að standa svona álengdar og fylgjast með þessum hamförum, það er sérstakt.