Thursday, December 27, 2007

Svissen frýling únd noijar

3. jóladagur. Hér hefur jólaheimsókn foreldranna gengið yfir, aðfangadegi fagnað með viðeigandi ofáti og jólagjafasundrun. Svo vaknar maður upp við timburmenn ofneyslu síðastliðinna daga og býr sig undir næstu lotu(græðgi). Þó vill nú svo vel til að ég er að vinna gamlárskvöld/nýársnótt.

Svona á jóladögunum gefst manni tími til að "reflektera" síðastliðið ár með vissum söknuði og votti af trega. Af einskonar melankólískri introspektívri sjálfsvorkun, um allt sem maður hefði átt að gera mikið betur en maður gerði en gerði ekki en mun sennilega gera öðruvísi næst en samt sennilega ekki......!

Árið má sennilega taka saman í orðum Lawrence Durrell sem sagði: " Vinna er blessun dulbúin sem bölvun". Samkvæmt þessum orðum höfum við hjónin notið blessunar þessi jólin.

Og orð Ernst von Feuchtersleben eru tvímælalaust mottó næsta árs: " Að breyta sjálfum sér er engum auðið - en að bæta sig, það geta allir.

Gleðileg jól allir saman, og takk fyrir mig!

Sunday, December 16, 2007

Allir dagar fyrstir af restlifuðu

Hér líða dagarnir hver af öðrum og á niðurteljaranum sem sýndi rúmlega 900 daga þegar við fluttum hingað eru nú aðeins 27 eftir. Svona hefur þetta potast dag fyrir dag á þess að maður hafi tekið eftir. Heyrði haft eftir einhverju norsku skáldi: "Allir þessir dagar sem komu og liðu, ekki vissi ég að það væri lífið!" Skemmtilega að orði komist.

Annars vil ég tileinka þennan pistil Vali félaga mínum. Hann er alkóhólisti. Hann er líka góður drengur sem mér þykir mikið til koma.

Wednesday, December 12, 2007

Ein af höfuðsyndunum

Hér hefur lítið verðið skrifað upp á síðkastið. Fyrir því er ein ástæða, ekki að tími hafi verið af skornum skammti. Ég er búinn að vera í fríi í 1 1/2 viku. Nei ástæðan er einföld og er helst sú að ég einmitt er í fríi, held að þeim minna sem maður hefur að gera þeim minna gerir maður. Og svo er líka eins og maður geti sofið allan sólarhringinn við þessar aðstæður og á þessum árstíma. Erettekki mErkileggt!

Friday, December 7, 2007

En tíminn líður ekki!

Og aldrei koma jóólin! Eins og sungið var hér forðum. Hér líður tíminn samt alveg eðlilega fyrir sig. Smám saman pjakkast aðstaðan í kjallaranum og stefnt að því að setja eitthvert gólfefni til bráðabirgða svo það verði nothæft.

Íslandsjólapakkarnir fóru í póstinn í fyrradag ásamt umsókn um sérfræðingsleyfi svo nú veður á súðum hjá útlegðarfjölskyldunni! Í gær var líka haldin aðventuhátíð bæði hjá Írisi í leikskólanum og hjá Ara í skólanum. Og eins og vant er gleymdist myndavélin heima. Þið verðið bara að ímynda ykkur hvernig þetta var.

Já!... Fuglarnir og sólin?...

Wednesday, November 28, 2007

Nú hefst vetrarfríið

Fékk óvænt frí í desember vegna ófullkomins frís í sumar, þe. ég átti ennþá viku til góða. Svo nú er tekið forskot á sæluna, farið í næstu bæjarfélög og "sjoppað" ef svo má að orði komast. Það kostar að vísu ferjuferðalag en gæti orðið vel þess virði!

Hef ekki komist að hlaupa síðastliðna daga sökum anna, hélt "lærðan fyrirlestu" um legsig sem mér finnst ýkt spennandi, í alvöru! Sumir græða á tá og fingri en þetta verður mitt gnægtarhorn og af nógu að taka, það er sko alveg á hreinu.

Monday, November 26, 2007

Lokaspretturinn

Þá er það síðasta eyktin fyrir 2 vikna frí í desember. Var með Ara í sundi í kvöld, honum fer heldur fram en gleymir sér gjarnan í vitleysisgangi ef maður hefur ekki hemil á honum. Hann er þó farinn að reyna að anda til hliðar þegar hann vandar sig og skriðsundið er heldur beinna en það var.

Þessi vika fer í ýmsa atburði skemmtilega, ætla mér að hlaupa í þágu mannkyns og ýmislegt fleira sér til gamans gert. Hvað síðar gerist mun framtíðin ein sýna en eitt er víst: Jólagjafirnar eru flestar komnar í höfn og tilbúnar til sendingar. Ekki ráð nema í tíma tekið.

Tuesday, November 20, 2007

Vont en venst vonandi

Þessa dagana er hlaupið með harmkvælum. Verkir í kálfum og sköflungum, þungur á mér og allt erfitt! Hef verið að reyna að kenna einhverju öðru um en að ég sé ca. 5 kg. þyngri núna en þegar ég byrjaði að hlaupa síðasta haust, svosem eins og að innleggin í skóna séu orðin gömul; að skórnir séu nýir; osfrv. Það má grípa í hálmstrá, en ekki víst að það hjálpi.

Saturday, November 17, 2007

Skráning á hinu óumflýjanlega

Þe. hversdeginum. Vaknaði, borðaði morgunmat, drakk kaffi, tók til inni hjá Írisi, borðaði hádegismat, drakk meira kaffi, fór í verslunarferð í nýja mollið hérna sem er eins og Smáralind, borðaði þar kvöldmat og drakk enn meira kaffi, heim að horfa á Wayne´s World með familíunni, út að hlaupa við Stokkavatnið og svo sit ég hér nú. Veðrið er gott, logn og 9°C. Tungl veður í skýjum. Varúlfaveður. Sá samt engan slíkan við vatnið. Sem betur fer.

Hef ákveðið að tíunda ekki klósettferðirnar...

Tuesday, November 13, 2007

Hausthæðirnar lagstar að

Sem ég segi, ekkert er nýtt undir sólinni. Ekki heldur hjá mér.

Djúpi þanki dagsins er: Gusa þeir mest sem grynst vaða? Bylur hæst í tómri tunnu? Hvenær kemur hlé? Nokkuð títt af Jóni frá Felli? Enn reimt á Kili?

4 km í stilltu frosti við Stokkavatn. Himininn heiður og tæri. Ég er í svaka stuði.

Sunday, November 11, 2007

Save it for a rainy day?

Já það má kanski segja, allavega voru kílómetrarnir 8 lagðir að velli í myrkri, rigningu og roki í dag. Og þeir voru teknir hægt, og með góðri upphitun á undan og teygjum á eftir. Þetta er sennilega tákn þess að maður sé að verða gamall, maður þolir minna af hreyfingu en áður og er lengur að koma sér í form, þótt ég eigi sennilega alltaf eftir að kenna Sverri hænsnabónda Kiernan um að hafa smitað mig af beinhimnubólgu hér um árið. Eða kannski frekar að hann gaf verkjunum sem ég var alltaf með í sköflungunum nafn. Já, það er nær sanni. Hef einsettmér að halda þessum vegalengdum sem ég hef verið að hlaupa síðastliðnar 2 vikur, nokkrum vikum lengur áður en ég fer að bæta við, svona rétt til að venja skrokkinn við.

Annars er helgin að verða liðin og ég sé fram á venjulega vinnuviku framundan og svo langþráð helgarleyfi. Og þá verður eitthvað skemmtilegt gert, eins og vanalega (ahemm!).

Saturday, November 10, 2007

Vinnuhelgi

Ég er að vinna um helgina eins og raunar allar helgar í nóvember nema eina. Og Það er saga lífs okkar að vinna alla daga og allar helgar. Það er samt alveg hund fúlt. Eða þannig. Ég fæ svo að öllum líkindum sérfræðingsstöðu á kvennadeildinni í byrjun næsta árs eða fra fyrsta janúar svo nú er maður alveg orðinn mikill karl. Eða þannig sko.

Desea el día de paga vivo!

Hljóp í dag 4 km. í stilltu hausti, gekk vel. Ég sé fyrir mér að með þessu áframhaldi geti ég hlaupið í einhverskonar hlaupi næsta sumar, það væri allavega gaman.

Sunday, November 4, 2007

Stutt andartak í löngu lífi

Helgarvakt. Rólegt í dag svo ég hafði meira að segja smá tíma fyrir skjólstæðingana, þá sem voru inniliggjandi! Sat eina stundina við rúmgafl konu sem kúgaðist og ældi og hljóp á klósettið þess á milli algerlega buguð. Þá næstu við sama rúmgafl þar sem hún ræðir, með eldmóð, um hugsunarleysið og einstrengingsskapinn í kerfinu þar sem ekkert pláss er fyrir einstaklingsmiðaða meðferð og nú er kominn þessi neisti sem maður sér hjá þeim sem berst áfram staðráðinn í að ná öllu útúr lífinu sem það getur. Að standa svona álengdar og fylgjast með þessum hamförum, það er sérstakt.

Wednesday, October 31, 2007

Af mammonskum, og öðrum pælingum

Hef komist að því að mig bráðvantar nýja tölvu. Og ekki bara einhverja, heldur iMac 24" kvikindi með stórum hörðum og fullt af fínum fítusum. Og það sem er kannski mikilvægast, hún er glÆný. Já svona fer það þegar maður fær dót í afmælisgjöf. Ævinlega vill mikill meira!

Annars eru þetta ekki sérlega hugsandi pælingar. Verð að reyna betur.... Jú hér kemur ein góð pæling sem Mér datt allt í einu í hug. Hver er tilgangur lífsins? (Kann einhvert ykkar svar við því? Allar tillögur eru vel þegnar, væri algerlega ti í að skeggræða það hér á þessum vettvangi). Hafa veraldleg gæði eitthvað með þetta markmið að gera, þe er annað háð hinu eða áhrifavaldur á það? Endilega setjið niður ykkar vangaveltur um þetta en munið að það sem skrifað er á "Vefinn" á eftir að standa þar um ókomna tíð (VÁ! var reyndar ekki búinn að spá í þann vinkil áður!)

Tuesday, October 30, 2007

Spurningin

Er hægt að segja um tvo karlmenn að þeir séu samkynhneigðir ef þeir laðast báðir að konum?

Vildi að ég væri hugsandi maður

Vafraði inn á heimasíðu Arnars Arngrímssonar í gær. Það er svo gaman að sjá að fólk ekki er alltaf fast í veraldlegum hlutum og getur skrifað um eitthvað skemmtilegt. Það var gaman. Verð að leggja inn nótu til hans einhvern tímann.

Hljóp við Stokkavatnið í dag með Þóru í meinleysis hausti. Hér er alltaf smá munur á hausti og sumri svo maður verði ekki alveg "villtur". Laufin falla af trjám og hitastigið fellur aðeins. Fíflar halda samt áfram að blómgast hver um annan þverann.

"Viva la harvesta"! eins og þeir segja í rómanskt mælandi hluta heimsins.

Thursday, October 25, 2007

Blööööh!

Hvað sumir dagar geta verið leiðinlegir. Og að dagarnir skuli allir byrja á vitlausum enda.

Maður dragnast hundfúll á fætur, dröslar sér og krökkunum á fætur. Hér eru það Ari og Þóra sem sjá um að vera hress, Ari byrjar vanalega á að setja malarann af stað og getur svo talað um allt og ekkert fram á kvöld. Íris er "meðvitundarlaus" þangað til hún er komin út í bíl. Ég er semicidal, hef allt á hornum mér og tek það vanalega út á Ara greyinu. Lítið uppbyggilegt það!

Svo líður vinnudagurinn og maður er í sæmilegu formi, fungerar svona að nafninu til.

Þegar heim er komið er maður svo þreyttur og pirraður og enn er það Ari greyið sem það bitnar mest á. Og svo að sofa.

Já ævintyri hversdagsins er aldeilis dásamlegt, eða þannig!

Hljóp 4 km í dag. Vona að geðstyrkjandi áhrif hlaupanna fari bráðum að "kikka inn".

Tuesday, October 23, 2007

Hið opinbera spjalltorg guðanna

Ég hélt að það væri ekki til Guð. En svo las ég viðtal við yngsta og ferskasta talsmann Krf hér í Noregi. Til skýringar þá stendur Krf fyrir Kristelige folkeparti og er, eins og nafnið gefur til kynna, pólitískur armur Guðs almáttugs hér í Noregi. Þessi verðandi máttarstólpi Noregs er semsé tvítugur galgopi, óskaplega ferskur og trendí í útliti en innviðirnir þrárri en vikugömul ísa. Þessi semsé rétt rúmlega úr framhaldsskóla skriðni tittur sem var að gifta sig 19 ára unnustu sinni fyrir 2 vikum, og kemur nú í viðtali fram og segir samkynhneigð það versta sem nútímasamfélagið eigi við að etja. Það að lifa í samkynhneygð sé synd samkvæmt ritningunni (sem hér eftir verður kölluð "Manúallinn") en hann "köttar þó þann slakka" að segja að samkynhneigð sé það samt ekki "per se". Er alveg miður sín að fólk ekki lifir í enu og öllu eftir "Manúalnum"!

Ja ég segi nú bara Gvuði sé lof að slíkur sómadrengur hafi aldrei óhlýðnast foreldrum sínum með dauðadóm eða ævarandi þrældóm sem "réttmæta" refsingu eins og "Manúallinn" boðar. Það verður spennandi að fylgjast með þessum mæta manni þroskast sem alvöru pólitíkus í framtíðinni og eins að fylgjast með vel þjálfuðum brachioradialis vöðvanum, hrörna nú eftir að kallinn er kominn í hnapphelduna!

Já, eins og ég sagði í upphafi var ég í efa um Gvuðs tilsvist en eftir að hafa lesið fyrrnefnt viðtal vona ég næstum að hann sé til. Við þurfum hann til að verjast skrípum eins og þeim sem framar er getið!

Sunday, October 21, 2007

Life goes on

Svo þá er þessi helgin liðin. Ég held mig við sama heygarðshornið og trimma léttfættur um stíga Stavangurs, nú síðast við Stokkavatnið. Ákaflega góður staður til að skokka við. Nánast alveg.... Blablabla... innantómt þvaður... prumpuhljóð...

Fékk nýtt leikfang um helgina. Leikfang mánaðarins. Ansi sniðugt. iPod touch. Mjög sensuellt lítið tæki sem maður getur geymt ýmsa ómissandi hluti lífsins í, svosem eins og tónlist. Er nú svo komið að ég er búinn að vista allt Frank Zappa safnið mitt. (2 diskar!) og Harvest með Neil Young á tækið. Alveg skrambi sniðugt og skemmtilegt.

Hei.. kann einhver góðan brandara?

Sunday, October 14, 2007

Stundarkorn að hausti

Hef ekki ennþá sett innlegg í bundnu máli. Það er því komið að því að rifja upp gamla ÓFÞ takta. Here goes!

Haust er komið, sumar farið
þannig það fór að lokum.
Fólkið í Angrinum veðurbarið
hversdags undir okum.

Já ekki hefur manni farið mikið fram frá því sem áður var. Hér nálgast nú næsta heimsókn frá tengdafólkinu sem er að verða að hausthefð og bara gott um það að segja. Og á morgun verð ég 35 ára. Ja må hann leva segja Svíar, Hurra for deg som fyller ditt år Norðmenn og Happy bussday to you segja Engilsaxar samkvæmt honum Ara mínum.

Thursday, October 11, 2007

Haustfríið er "nesten omme"

Já hér sit ég nú kæru vinir, ó já! Og haustfrí Ara Orrasonar er að nálgast sitt endalok. Hér hafa mildir vindar hausts með logaroðnum himni og trjám sveipað hversdaginn sínum, já mér liggur við að segja, menlankólískum, allt að því anhedoniskum "effekt". Já ég get bara ekki lýst því öðruvísi, eða öllu heldur gæti ég það ábyggilega ef ég myndi reyna, þyrfti raunar ekki að reyna svo mikið. Þegar ég hugsa um það er ábyggilega hægt að lýsa þessu á þúsund aðra vegu án þess að reyna svo mikið á sig og niðurstaðan væri jafnvel þannig að það væri einhver meining í því, ekki bara eitthvað helvítis bull og kjaftæði. Andskotinn hafi það.

Talandi um bull þá er Íris búin að fá inni í skóla næsta haust. Það er ekki sami skóli og Ari er á, það er eini skólinn af 4 sem hún þarf að labba yfir umferðagötu, það er af 4 mögulegum skólum sá sem hefur lélegast orðspor sem menntastofnun. Og þá verður manni spurn: Er algert skilyrði að vera algerlega skini skroppinn til að geta talist gjaldgengur sem kommúnustarfsmaður hér í Noregi!? ERU ÞETTA ALLT BARA HELVÍTIS HÁLFVITAR?? NENNIR MAÐUR AÐ STANDA Í ÞESSU MIKIÐ LENGUR??

Já en svo að jákvæðara spjalli. Ég er farinn að hlaupa aftur og skapið er (hvað sem menn annars lesa út úr síðustu málsgrein) allt í bataátt. Og hvað viðvíkur spurningunni þá er svarið: Nei, komum heim næsta haust ef þetta verður ekki leiðrétt. Svo þá er það sagt!

Thursday, August 30, 2007

Haustið komið

Hér hefur það lengsta vor sem menn muna verið leyst af af hausinu. Þar með ákveðið að sumar sé ekki á dagskrá að þessu sinni.

Og með haustinu hefst hlaupavitleysan aftur af alvöru. Og þá er gott að rifja upp fyrirheit og framadrauma síðasta árs og náðs árangurs. Planið var: Hlaupa Kaupmannahafnarmarathonhlaup og verða helköttaður að verki loknu. Niðurstaða: Hljóp ekki einu sinni skemmtiskokk í Stavanger marathoni og er nú með stærri kúlumaga en nokkru sinni. Ergo: Skrambinn!! Mishepnaðist!! Jæja, gengur betur næst.

Hljóp 6 km. við Stokkavatn í kvöld í stillu og haustsvölu veðri. Alveg dágott og hressandi. Bætir hressir og kætir, já það er sko alveg á hreinu.

Wednesday, August 15, 2007

Hlaupið í angist!

Sigurlín hótar að taka mig út að hlaupa þegar hún kemur í október. Hljóp því í hreinni skelfingu 4 km í dag. Og ég sem ætlaði að vera kominn i marathonform í lok mai náði með herkjum að klára. Lengi lifi þrautseigjan :(

Thursday, August 2, 2007

Sumarfrí

Lang frá síðustu færslu. Erum nýlega komin heim úr Danmerkur/Þýskalands/Hollands/Svíðþjóðar ferðalagi. Alveg fínasta ferð og eins og vant var þá bilaði bíllinn og í þetta skiptið eyðilagðist sjálfskiptingin alveg. Það var nú það! En við erum allavega komin heim.

Wednesday, June 13, 2007

Útlagar snúa aftur

Langt um liðið frá síðustu færslu. Vorum 2 vikur á Gamla Landinu nýverið og nutum gestrisni mágkonunnar og foreldranna. Hittum margt fólk sem langt var um liðið frá síðustu viðkynnum og ég gerðist svo frægur að kafa, með Jasoni og Tobiasi djúpfrömuði, í Silfru í Þingvallavatni. Skemtileg reynsla það og ferðin í heild hin skemmtilegasta. Stundaði ýmsar gerðir hlaups þar heima, 1 "off-road" hlap um Elliðavatn, hlaup í Norðurárdal, styttri hlaup frá Fákahvarfinu og eitt innanhúss á rottubretti. Semsé ekki alveg staður í ferðinni en hef verið heldur latur að stunda hlaupin reglulega upp á síðkastið.

Sáum hluta af leik hjá stúlknadeild Breiðabliks gegn KR þar sem Matta sýndi heilmikla elju og ákveðni og gaman að sjá hvað þær voru góðar. Að sama skapi hörmulegt að horfa á aðstöðu (leysi) við "keppni" hjá Ara í dag en þeir kepptu gegn drengjum frá öðrum bæjarhluta í dag. Leikurinn fór fram á hallandi hnúskóttum leikvangi með netlausum mörkum og það verður að segjast að stelpurnar voru einfaldlega MIKLU betri en þeir! Kemur kannski inní að þeir fá eina "æfingu" á viku sem í vetur fólst í innileikjum horn í horn í sal og engin æfing í knattleikni og svo keppnum einu sinni í viku í sumar og heldur ekki neinar æfingar sem slíkar. Og þjálfararnir sem þó eru allir að vilja gerðir eru að paufast þetta í frítímanum sínum með enga formlega menntun sem þjálfarar og engin krafa gerð um nokkuð slíkt af hendi Félagsins sem maður er að borga dýrum dómi fyrir að "þjálfa" drengina! Semsé enn einn kaflinn í hina löngu bók meðalmennskunnar hér í handarkrika hins vestræna heims.

Segi eins og Marteinn heitinn; Stend hér og get ekki annað!

Tuesday, May 15, 2007

Als meststof voor de ziel

Stelde vandaag mijn gebruikelijke 3 mijlen in een prachtige noordelijke wind in werking. Heb niet liep nu voor een tijdje zodat was het een beetje hard op de benen en niet de minst op de ziel maar maakte tot het al manier met een gezondere ziel. Ik verklaar dat lopen, zoals ontbrekend, menselijk is.

(Aðeins farinn að æfa mig í Hollenskunni fyrir sumarfríið)

Wednesday, May 2, 2007

Afstæðiskenningin í verki

Finnst ég alltaf vera að hlaupa hægar en er raunar alltaf að auka við mig í hraða! Skil þetta ekki? Hljóp 6.5 km. í dag í blíðskaparveðri.

Hér er allt að kvikna, nú standa víst eplatrén í Hörðalandi í fullum blóma sem er mikið sjónarspil. Við sjáum það ekki í sumar, kannski næsta.

Hér var annars afmælisveisla Írisar í dag. Stelpurnar úr leikskólanum nema ein. Mikið glens og gaman og gleði. Tiltölulega róleg stemmning og ekki eins og við er að búast á laugardaginn þegar Ari fær strákana úr bekknum sömu erinda!

Monday, April 23, 2007

Það er vor í lofti og vindur hlýr

Heldur nú betur! Hér er aftur komið vor/sumar og i dag voru hlaupnar 3 mi. í 13°C hita og á tæpl. 11 km/klst. meðalhraða. Fanst ég samt vera að taka því rólega.


Hér var mikill jarðvöðulsháttur um helgina. Ég plantaði semsé 4 rósaplöntum til viðbótar við þær 2 sem voru settar niður í fyrra. Svo reif ég niður Rhododendroninn sem var framan við húsið og til lítillar prýði. Svo nú er það bara hvítblómarunninn (perlebusk?) sem stendur af því sem var í garðinum þegar við keyptum húsið. Sprettan á rósunum frá í fyrra er þegar orðin ca. 20 cm. það sem lengst er vaxið svo nú er komin öskrandi spretta.


Sumarfrís áformin eru líka að fæðast, var að senda bréf á B&B i Amsterdam sem vill taka við okkur. og áður vorum við búin að panta viku i Danmörku svo það er að komast mynd á þetta. Gaman að því!

Monday, April 16, 2007

Kvöldið er okkar og vor í Vaglaskóg

Í dag var farið stutt og hratt. 3 mi. á 11.4 km/klst meðalhraða, ekki dónalegt það. Vorblíða af bestu sort, hæg gjóla og bjart yfir.

Merkilegt að ein af mínum allra fyrstu minningum er úr útilegu með pabba, mömmu, Láru og fleirum sem ég man samt ekki hver voru. Einstaka brotakennd atriði eins og að þar sem við stoppuðum, við mót gróins hrauns og grasbala, var vatnsfyllt hola sem maður gat kúkað í. Miðað við hvaða áhugasvið skarpasta minningarbrotið er fest við má gera ráð fyrir að ég hafi verið ca. 3ja ára. Passar vel við spakmæli sem Kjell, einn af lærifeðrum mínum hefur uppá vegg og hljóðar eitthvað á þá leið að lífið sé ekki sá tími sem maður er lifandi heldur þau augnablik sem maður man. Sniðugur karl hann Kjell, náði að kalla fram "Norrlendingen" í honum í dag með því að láta hann blóta mér í vitna viðurvist, þótti afar vænt um það!

Að öðru: Ari kemst í næsta hóp fyrir ofan sig að hausti í sundinu. Hann var að vonum ánægður með það, raunar ljómaði hann! Segist ætla að æfa sund þegar hann verður eldri og ég held að hann gæti alveg náð góðum árangri í því eins og hann er vaxinn, drengurinn, langur og stæltur. Liðleikinn kemur svo með tímanum geri ég ráð fyrir :)

Thursday, April 12, 2007

OVER THE TOP DADDY!!

Já ég fór nýja leið í dag, bratt og stutt og mikil hækkun. Og erfitt! Samt ekki eins erfitt og hjá Sylvester Stallone í myndinni Over the top eða það efast ég um. Svo stutt hlaup á eftir í afar mildu vorveðri.

Hér var svo bökuð Pizza eftir uppskrift í dag, og það tókst bara svona agalega vel. Erum að breytast í "gjör det selv" fjölskyldu að hætti norskra, æ! mig auman!

Wednesday, April 11, 2007

Ertzten tag im homo hozen!

Já þá er vorið komið af fullum krafti og ég farinn að hlaupa í hommabuxum aftur. Tileinka hlaup dagsins Jasoni sem ætlar að heimsækja okkur með sinni indælu fjölskyldu, þar á meðal nýfermda manninum sem ég er ákveðinn í að senda gítargripabók fyrir nýja gítarinn sinn.

Hljóp 4 mi. í kvöld i banastuði, 11 km. meðalhraða og ekkert mál nema rétt að vi. hnéð lét vita af sér undir lokin. Ég stefni að Siddis hlaupinu í lok apríl sem er kringum Stokkavatnið. Leið sem ég hef oft hlaupið áður en verður stemmning að hlaupa með fleirum í hóp. Hlakka til þess.

Þurftum að stoppa 3svar á leið heim úr vinnunni í dag þar sem ungfrúin á heimilinu sat afturí og orgaði og grenjaði af einskærri... ummmm... ákveðni. Já blessað barnalán!

Monday, April 9, 2007

Páskar búnir

Já þá er búin hátíð karlsins á prikinu og hversdagurinn á næsta leiti. Það er gott!

Í dag hljóp ég 3 mi. með blý í skónum, eða þannig upplifðist það allavega meðan á því stóð. En svo kláraðist það með sínum ágætu fylgikvillum, þe. auknum hressleika og bjartsýni. Það er gott!

Börnin eru að gera hvort annað hálf klikkuð, naggandi og böggandi í hvort öðru. Leið á hvort öðru eftir viku frí saman, en nú sér fyrir endann á því. Og það er líka gott!

Friday, April 6, 2007

Hlaup í þágu heimsfriðar

Kvöld við Stokkavatnið á hnútasvipudaginn. Og í tilefni dagsins var hlaupið lengra en áður. Nú 4 mi. og á jöfnum dampi án vandræða. Alveg super marvy!

Lét annars til skarar skríða og tók til í geymslunni í fyrradag. Þarft verk og bara nokkuð skemmtilegt. Og í dag var það svo Haddabrauðsbakstur af fullum krafti. Gaman, gaman!!

Wednesday, April 4, 2007

Pow scar 'n owl gassed

Og það hefur meðal nossarinn tekið í sína þjónustu. Og ég hélt að þessi annarí hefð heimanað væri að ofgera hlutunum! Hér er bannað að kaupa bjór úr búð eftir kl. 18 í dag (miðvikudag) og menn flestir farnir á "fjellET" eins og Frosti myndi orða það.

Fór að hlaupa í kvöld og hljóp 3 mi. Hefur heldur dalað einbeiting og marksækni eftir blessaða helvítis pestina hér um daginn og þörf á bragarbót þar. Að svo mæltu heiti ég því að nefna bessaða helvítis pestina aldrei aftur!

Er annars orðinn PADI, bíð bara eftir teininu og er tilbúinn að kanna höfin 7. Kafaði niður á 20 metra dýpi í minni síðustu köfun. Dálítið ógnvekjandi tilfinning óneitanlega en engu að síður spennandi. Nú þarf bara að gera búninginn þéttan svo hann virki sem það sem hann gefur sig út fyrir að vera, semsé þurrbúningur.

Sunday, April 1, 2007

Djúpin könnuð

Lítið hefur farið fyrir hlaupum sl. viku vegna köfunarnámskeiðs, hvert kvöld frá þriðjudeginum síðastliðnum og síðasta eftirmiðdegið/kvöldið verður á morgun. Og þannig verð ég kominn með Open Water Diver skírteini PADI. Svo þarf að fara að setja fart í hlaupamálin aftur.

Monday, March 26, 2007

Fljúgandi spendýr


Hér kemur

mynd af fótboltahetju fjölskyldunnar. Þessi mynd var tekin rétt fyrir fyrsta fótboltamót kappans. Efnilegur eins og sjá má! Spilaði helming af 3 leikjum og skemmti sér afskaplega vel og stóð sig prýðilega. Stoltur af mínum manni!

Af afrekum heimilisföðurins ber það nýast í fréttum kvöldskokk í logni og heiðríkju í kvöld. Það er ekki hægt að segja að ég sé léttur á mér en gengur samt vel að hlaupa þennan 3 mi. hring sem ég hef verið að hlaupa í vetur. En veðrið verður ekki mikið betra. Hljóp inn í ljósaskiptin með roða í vestri og fuglakvak allt um kring. Sá í fyrsta sinn leðurblöku á flugi í dag, flögrandi að ná sér í sopa úr Stokkavatninu. Skemmtileg sjón það!

Thursday, March 22, 2007

Kvöld í tunglskini

Í stjörnubjörtu og við mánasigð og logn var farinn stuttur 3 mi. hringur niður að Stokkavatni. Fannst ég þungur að sumu leyti en ekki að öllu. Gekk vel, aldrei að niðurlotum kominn á leiðinni.

Smá leiðrétting. Ari átti ekki að keppa á fótboltamóti á þriðjudaginn heldur á laugardaginn. Æfingarleikurinn var á þri. en þá var karlinn lasinn. En hann fer ótrauður á mótið um helgina.

Nú fer að líða að því að ég finni mér hlaup til að fara í í sumar. Kannski Stavanger marathonið, byrja smátt og bæta smám saman við sig, það er stefnan.

Monday, March 19, 2007

The wimping limper stops for nobody!

5 mi. í dag, heiman að svo ég slapp við að taka bílinn, sem er kostur að tvennu leiti. Annarsvegar minnkar útblástur gróðurhúsalofttegunda og í öðru lagi get ég fengið mér í glas áður en ég legg i hann án þess að hafa áhyggjur af að missa teinið!

Hér eru tveir krakkar með kvefpest og hita svo þau hafa verið heima í dag. Ari er að keppa á sínu fyrsta fótboltamóti á morgun svo það ætti að draga hann á fætur á morgun, enda pestin hvorki þung né alvarleg. Stefni að því að hafa með myndavél til að festa á mynd atburðinn og Gústi og Þórahallur fá svo að sjálfsögðu eintak af afrakstrinum enda að stóru leiti á þeirra ábyrgð hvernig komið er, og er það vel!

Friday, March 16, 2007

Twins

Allir muna eftir myndinni með Arnold Swarzenegger og Dannie DeVito, þar sem þeir léku tvíbura, annar stór og stæltur og góður og vitlaus en hinn lítill og feitur og illgjarn og óheiðarlegur. Það er ekki það sem ég meina, en nóg um það.

Ennþá er ég að hlaupa stutt endurhæfingarhlaup. Í dag var kalt og gjóla en þurrt. Þolið er að koma og kraftar að aukast. Þetta er miklu skemmtilegra en þegar ég var að byrja fyrst, gengur mikið hraðar.

Ari las ævintýri með skólafélögum sínum á "morgensamlingunni" á "Torjå" eins og hann er kallaður á Stavangursku, samkomusalurinn. Stóð sig bara vel sveimérþá. Skil varla upp né niður, finnst hann hafa vaxið um heilt númer síðustu 2 vikur, allur að róast og spekjast.

Já og ekki síst: Fann afmælisgjöf og keypti handa Þóru á bæjarröltinu í dag. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir.

Wednesday, March 14, 2007

Vorrigningar

Engin steypidemba heldur meira svona dropar á stangli. Stutt hlaup í léttu rigningardrussi og gjólu en annars afar góðu veðri. Jafnt hlaup og hraðinn smám saman að aukast samhliða úthaldinu.

Fórum í bæinn í dag eftir vaktina mína sem var afar tíðindalítil, vaknaði úthvíldur kl. 6 í morgun og gat ekki sofið lengur! Reyndi að finna afmælisgjöf fyrir Þóru sem á afmæli á morgun en náði ekki alveg fullri lendingu með það.

Fengum SMS frá Tinnu í dag frá Bergen, semsé í seilingar fjarlægð. Alveg agalegt að geta ekki hitt hana en það verður bætt úr því í sumar, heldur nú betur og jamm og já!

Tuesday, March 13, 2007

Dagnóta

Hafði vissar efasemdir um framhaldið eftir blessaða helvítis pestina og var við að draga í land með framhaldið en er smám saman að komast af stað aftur. Alveg makalaust hvað regluleg (les: rengluleg) hreyfing hefur að segja um andlegt atgerfi.

Þessa dagana er að fæðast lauslegt plan um framhaldið. Stefni að maraþoni í haust með millilendingu í styttra hlaupi í sumar einhvern tímann þar sem markið verður fof að klára en ekki að slá met. Í praxis verða þó met slegin, allavega persónuleg.

Já Willie orðaði þetta svo vel hérna um árið, engu við það að bæta!

Monday, March 12, 2007

Mánudagurinn 12. mars

Átti óvænt frí í dag sem var notað vel. Röltum fyrst kringum Mosvatnið eftir að hafa skutlað krökkum í skóla, leikskóla. Svo í bæinn með hrærivélina sem reyndist alss ekki biluð að sögn fróðra svo hún kom með mér heim seinna sama dag. Hljóp létt hlaup við Stokkavatnið í ágætis gír áður en ég keyrði Þóru í vinnu og að lokum var Íris keyrð í afmæli til Emblu og Ari á sundnámskeiðið. Já og viti menn! Hann stóð sig bara með stakri prýði það sem ég sá til hans, synti eins og greifi og reyndi mas að taka tilsögn! Detti mér allar dauðar!

Saturday, March 10, 2007

Vor í lofti

Hlaup og hnébeygjur er uppskrift dagsins. Nú fer skrokkurinn að komast í gang aftur. Við Stokkavatn í gjólu og rigningu en afar gott milli trjána.

Kemst sennilega ekki á PADI á mánudaginn vegna sundnámskeiðs hjá Ara. En, koma tímar, koma ráð.

Thursday, March 8, 2007

Quarz

Sveiflur. Ef maður leiðir orku í kvartz kristal þá fer hann að sveiflast á ákveðinni tíðni og er sú tíðni "þýdd" yfir á það sem við sjáum sem ein sekúnda. Ef ég man rétt er tíðni örvaðs kvartzkristals ca. 32.000 Hz. En hvaða máli skiptir þetta annars? Það er góð spurning.

Ekkert hlaupið í dag en kvöldið notað í styrkjandi æfingar upp úr nýju biflíunni: Runner's World Guide to Cross-Training. Já það er alltaf eitthvað nýtt! Og til að bæta gráu ofan á svart hefur sú hugmynd fæðst (getin af Jasoni, móður allra hugmynda) að taka PADI grunnnámskeiðið og opna þannig möguleikann á könnun lítillega stærri hluta þessarar jarðar sem við búum á, þótt þetta einskorðist við 18 metra dýpi sem setur manni nú viss takmörk.

Svo þessi hlaupalogg minn er smám saman að breytast í skrásetningu þess fjölda hugmynda sem lýstur niður í mig á hverjum tíma fyrir atbeina innri og ytri krafta. Því ætti, þegar tímar líða, að vera hægt að ákvarða á hvaða tíðni ég sveiflast.

Monday, March 5, 2007

"Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar"

Já og Lasarus er risinn. Hipp húrra! Fyrsta hlaup mitt eftir langa fjarveru, mér til sálarbótar og öðrum fjölskyldumeðlimum til léttis (hvað líður, vonandi) og von til að fýlan fari að rjúka úr mér ("Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.").

Aðrir í fjölskyldunni í góðum gír, Ari farinn að stunda sundið af meiri alvöru, farinn að bera sig við þá sem eru góðir og reyndi fyrir sér í djúpu lauginni í dag. Íris reytir af sér spakmælin. Var um daginn að reyna að kenna henni að skrifa nafnið sitt rétt en hún hafði aðrar meiningar en ég um það. Hún sat svo í dag og var að ræða hvaða stafir eru með kommu og sagði svo:"Stafurinn minn er með kommu.... en ég skrifa með punkti, hehehe".

Monday, February 26, 2007

Upprisan

Já Brynja þú hefur auðvitað rétt fyrir þér, enda sýndi það sig í gær að þetta er allt á hraðri uppleið. Fórum í göngu við Hålandsvatnið í slyddu með krakkana og allt gekk vel, engir verkir eða neitt. Verð farinn að hlaupa eftir viku, það er loforð!

Fór með Ara á sundnámskeiðið, sem hefur fram til þessa verið alger ávísun á pirring. Áttum gott samtal fyrir tímann um hvort hann vildi hætta sem han vildi í fyrstu þar til hann fékk þá afarkosti að hann yrði þá ekki skráður á næsta námskeið og kæmist þannig ekki upp í næsta þrep. Og þá söðlaði hann alveg um og stóð sig bara vel, hlustaði og gerði eins og fyrir hann var lagt. Svo enn sem komið er heldur hann plássinu þar.

Thursday, February 22, 2007

Geðveikur!

Já ég er bara hreinlega að verða geðveikur á verkjum, slappleika og aumingjaskap eftir þessa helvítis pest. Get ekki gengið upp tröppur i vinnunni heilan dag án þess að vera með patólógíska strengi daginn eftir, eða raunar sama dag! HELVÍTIS!!! Fögur fyrirheit um að ganga á hverjum degi í þessari viku hafa farið fyrir lítið. HELVÍTIS!!! Og ég get ekki beðið eftir að verða eins og nýsleginn túskildingur aftur, eins og mér líður alltaf. Maður verður algerlega háður því að finna hvergi til og vera hress og vel upplagður, það finnur maður við svona HELVÍTIS uppákomur. Mæli ekki með þessu við nokkurn mann.

Saturday, February 17, 2007

Laugardagur

Og samkvæmt plani langur hlaupadagur en ég held ég fari mér í engu óðslega og prófa kanski á morgun eða hinn og þá bara stutt.

Talaði við Árnýju í dag, þar var allt í sómanum þrátt fyrir óværa drauma sem gáfu annað til kynna. Bendir kanski til að það sé ekkert að marka drauma. Hjörvar á námskeiði að nema lekritaritun, Þetta gæti verið upphafið að ferlinum hjá honum, ég slæ því hérmeð föstu og eigna mér að hafa uppgötvað hann fyrstur allra.

Tuesday, February 13, 2007

Resureksjön!

Lesist á bíómyndatreilersku. Það er semsé farið að rofa til yfir hræinu, flugurnar hættar að sveima yfir því og það jafnvel staðið upp! Minnir um margt á smásögu eftir Ray Bradbury ef ég man rétt, um mann sem gengur aftur eftir mörghundruð ár og lifnar upp í glæpalausu samfélagi, fullur haturs á öllu og tekur til við að drepa allt og alla. Skildi aldrei alveg pointið með sögunni, enda búinn að gleyma henni að mestu leiti. Nema hvað, ég er ekki fullur haturs og fer, hvað líður, að hefja upphlaup að nýju. Labbaði upp nokkrar tröppur í vinnunni í dag og var að niðurlotum kominn. Svo það er mikið uppbyggingarpotensíal fyrir hendi. Húrra fyrir því!

Wednesday, February 7, 2007

Er þetta kúkur?

Hér heldur helvítis pestin áfram, slappur eins og tuska og fullur sjálfsaumkunar. Og það sem verra er, þetta sést varla á blóðprufu og ekkert á röntgen svo ég hef ekki haldmiklar sönnur á veikindunum, þrátt fyrir nokkuð einarða leit. En markið er ennþá sett hátt, þótt ég rifi aðeins seglin og segi: "Ég er 1/2 marathon joggari, ég ætla að jogga 1/2 marathonið"!

Skráið ykkur inn seinna þegar ég lækka enn kröfurnar og segi:" Ég er skemmtiskokkari, ég ætla að hlaupa skemmtiskokkið"!

Thursday, February 1, 2007

Kaflaskil?!

Já það virðist vera að sýna sig að kallinn er með Influenzu, frábær tímasetning! Hvað um það, eftir að ég gat nánast legið flatur þegar magapínu/brjóstsviðakastið bataði (Nb. þökk sé Ástu vinnufélaga, komin á wall of fame hjá mér að eilífu fyrir það!) hefur ástandið hææææææægt og rólega verið að skána.

Og þessi veikindi gætu sett strik í reikninginn með Marathon hlaupið góða. Þetta átti semsé að vera 1. vikan í upptröppuninni að hlaupinu en eins og það lítur út núna er ég úr leik næstu ca. 1 1/2 vikuna. Æ, svosem ekkert að gera annað en sjá hvað setur. Kosturinn við veikindin eru þau að ég er komin niður undir 81 kg svo ég er heldur léttari á mér en þegar ég byrjaði í nóvember. Já frábær árangur sem maður nær með því einu að liggja grenjandi í rúminu.

Ekki missa af næsta kafla í veikinda/hlaupa dramanu!

Friday, January 26, 2007

Veikindi

Nú lítið um hlaup vegna heilsubrests sem lýsir sér í kvefi og höfuðverk með hittamalli og hóstakjöltri. Byrjar ekki vel, aðdragandinn að langhlaupinu. En þetta hlýtur að koma allt saman og kom sér svosem ekki alveg illa þar sem einhver vinstrifótarslæmska vað farin að láta á sér kræla.

Monday, January 22, 2007

Nú er kominn snjór

3 mi. hlaup við frostmark í logni og nýföllnum snjó. Og já, áður en það byrjaði að snjóa hafði fallið slydda sem hafði frosið og myndað glæru undir nýfallna laginu! ómögulegt færi? Aldeilis ekki þegar maður hleypur á YAKTRAX! Gekk afskAplega vel og byrjaði ekki að skrika að ráði fyrr en ég hætti að hlaupa. Nú eru allir vegir færir, enda engu að kvíða á þessum fínu hálkugormum.

Annars var Ari á sundnámskeiði í dag. Ekki meira um það en hann ætlar að hvíla sig á Geimbojnum eitthvað næstu daga...

Saturday, January 20, 2007

Skref í rétta átt

Langur í dag. 7 mi. í 6°C vestan roki og rigningu. Eitt af betri hlaupunum í langan tíma. Slakur og afslappaður, hljóp í algeru dóli en er samt að hlaupa ca. km. hraðar á klst. en í upphafi.

Fór annars í bæinn í dag með krakkana í strætó og hitti Þóru sem var á morgunvakt í dag. Sátum á kaffihúsi og drukkum og átum í mestu vellystingum og rigningin lamdi göturnar fyrir utan. Talaði við Jason í gær, krakkarnir búnir að vera í algeru lamasessi, Petra með Inflúensuna og Atli bólgnum botnlanganum fátækari síðan á miðvikudaginn í síðustu viku. Reyndi að fá mig til að taka PADI prófið, kanski það takist hjá honum fyrir rest. Hver veit hvaða della tekur við næst....

Thursday, January 18, 2007

Tölt í tunglskininu

Í stilltu og stjörnubjörtu, logn og ca. 4°C. Hægt og rólegt hlaup.

Vorum á kvöldskemmtun hjá Ara í skólanum. Hellingur af öskrandi börnum og hamagangur á hóli. Nóg til að æra óstöðugan. Samt gaman að sjá krakkana syngja og frílysta sig uppi á sviði fyrir fullum sal eins og ekkert sé sjálfsagðara. Já, bara kaldir krakkar orðnir. Og ekki skemmdi fyrir að okkur áskotnaðist heilt heljarinnar perlusafn til að gera hálsfestar að ógleymdri Gæru dúkkunni sem Espen bekkjarbróðir Ara gaf Írisi sem hann vann og vildi ekki eiga. Fullt hús stiga!

Wednesday, January 17, 2007

Afsakið hlé

Kominn aftur eftir smá hlé vegna vakta og langs hlaups á sunnudaginn. Í dag 4 mi. í 6°C og sunnan gjólu. Sóttist þetta seint og erfiðlega að eigin mati en sá þegar upp var staðið að ég var að auka meðalhraðan svolítið sem skýrir þessa "tregðu". Er að hlaupa mína 8. viku eftir því sem mér reiknast til og bráðum fer að líða að niðurtalningu að hlaupinu í Köben. Set hlaupaprógrammið á netið næstu daga fyrir þá sem vilja hlaupa með mér!

Sunday, January 14, 2007

Langur sunnudagur

Í dag langur sunnudagur en ekki laugardagur þar sem ég var á vakt í gær. 8 mi. í 5°C, roki og einstaka skúr en þá kemur sér vel að geta hlaupið kringum Stokkavatnið sem er nánast umlukið skógi. Erfitt seinni partinn sérstaklega upp á Fjellet-ið til baka en hafðist þó allt saman.

Annars sett stefnan á bíó í dag með krakkana, kannski "Crazy feet" eða hvað hún nú heitir myndin um mörgæsina sem ekki kann að syngja eða eitthvað svoleiðis.

Thursday, January 11, 2007

Og den som....... , han er Jogga

Ákvað að láta hálfkveðna Pekkavísu leiða inn í skráningu dagsins, fanst það einhvernveginn eiga við.

Hljóp 3 mi. i dag, veður skýjað og haglél en gjóla/andvari og 4°C á hitamælinum. Stífur frá í gær og velti fyrir mér í lok hlaup hvað ég væri að útsetja mig fyrir. Fann út að þetta jafngildi því að fara út með hundinn, þe. hundinn í sjálfum sér því þetta hefur óneitanlega áhrif á skapið til hins betra. Svo ég held áfram, ótrauður.

Wednesday, January 10, 2007

Kvöld við vatnið

Með kaldara móti í kvöld miðað við oft áður, 2°C og norðan gola. Hljóp Stokkavatnshringinn með fjölmörgum öðrum sem voru að skokka, eða jogga eins og þetta hét nú einu sinni.

Annars viðburðarsnauður dagur, helst vinnan sem olli hugarbrotum. Heill dagur við reverse family planing. Indælis starfi. Ó já!

Læt samt engan bilbug á mér finna heldur kyrja: "Ég er marathonjoggari, ég ætla að jogga marathonið!"

Monday, January 8, 2007

Af mannfræðistúdíum, lærðum

Hlaupið í dag var stutt, 3 mi. Veður gott, gengið á með hellidembum í dag eins og síðustu daga en stytt upp seinni partinn. Ca. 6°C með sunnan gjólu. Stífur fyrst en liðkaðist þegar á leið. Hljóp hins vegar langt á laugardaginn, rétt rúma 11 km. (7 mi.) í þessu líka fína miðdegisveðri, hringin kringum Stokkavatn heiman að. Kannski ástæðan fyrir stífni dagsins í dag?

Var annars heima í dag, fórum tvö í bæinn og dingluðum okkur í rólegheitum. Fórum ma. á hrygningastöðvar þeirra Angursmanna, þ.e. Magasin Blaa, þar sem Beyglur fást til sölu og þykir sérlega góð áta fyrir ófrískar kérlingar heimamanna. Flykkjast þær gjarnan þangað í torfum, svokölluðum "barsel grúppum" og þarna barsla þær svo sín á milli og jarma um hvað þeim sé illt í rassinum og hvað sé mikill munur að vera óléttur í annað sinn og annað álíka spennandi! Já það eru að sannast spök orð Þóris Haraldssonar, líffræðikennara úr Menntó hve við karlþjóðin förum mikils á mis að geta ekki gengið með börn.

Friday, January 5, 2007

Komdu í gær

Já svona leikur tæknin mann, komst ekki inn á Bloggið í gær vegna tæknilegra takmarkanna. Stefnan nú sett á nýja versjón til að losna við fleiri uppákomur.

Hljóp stutt hlaup, 3 mi. í 5°C og norðlægri gjólu og rigningin ekki langt undan, en hékk þó þurr. Tekið á enn styttri tíma og meðalpúls í alveg sögulegu lágmarki.

Tuesday, January 2, 2007

Nú árið er liðið

Og fyrsta hlaup ársins einnig. Svellandi blíða í kvöldrökkrinu, norðan gola og 4°C hiti. Stífur í kálfum seinni partinn en gekk þó vel.

Af öðrum er það helst að frétta að Þórhalli og Helgu fæddist stúlka (í dag?) skv. skeyti frá Hallberu frænku. Hún lengi lifi og þau öll, HÚRRA!

Monday, January 1, 2007

Nýársdagur

Skv. plani átti að hlaupa stutt í dag. Hef ekki séð mér það fært sökum skammvinra "veikinda" og ójafnvægis í vökvaballans í dag (eins og ég drakk nú mikið í gær). Reyni að bæta um betur næstu daga.

Nú er hins vegar stefnan sett á Kínverskt veitingahús hér í bæ eftir afar rólega byrjun á árinu, sængurlegu og lestur.